Quantcast
Channel: retro – Nörd Norðursins
Viewing all 39 articles
Browse latest View live

Nintendo Game & Watch tölvuspilin

$
0
0

Fyrir tíma Gameboy og annara handhægra leikjatölvna voru tölvuspil málið. Ég myndi skilgreina tölvuspil sem einfalda tölvu sem er hægt að setja í vasa, með áföstum skjá og stjórnborði, og með einum eða fleiri innbyggðum leikjum sem er ekki hægt að skipta út. Leikirnir á spilunum eru líka yfirleitt ekki í lit og allar aðgerðir sem hægt er að gera í spilinu eru bundnar við eina óhreyfanlega skjámynd sem er allur heimur spilsins. Ég hugsa að flestir krakkar sem öldust upp á níunda og tíunda áratugnum hafi átt alla vegana einn slíkan grip, en þau voru auðvitað töluvert ódýrari en alvöru leikjatölvur og gæddar þeim góða eiginleika að geta hafið ofan af fyrir börnum í löngum bílferðum eða álíka aðstæðum.

Hvað vantar inn á þessa mynd?

 Tölvuspilin eru að sjálfsögðu mjög mismunandi í gæðum. Ég átti nokkur svona spil. Það fyrsta sem ég man eftir var Batman spil, sem var pínkulítið, án alls hljóðs og hafði mjög takmarkað skemmtanagildi. Seinna spilið sem ég man eftir var Turtles tölvuspil, en það var töluvert betra. Í því stjórnaði maður einni af stökkbreyttu ninja skjaldbökunum sem stóð allan tíman útí vinstra horni skjásins. Óvinir streymdu síðan inn frá hægri hluta skjásins sem skjaldbakan þurfti að sigra til að halda áfram. Hljóðið í spilinu var meira að segja frekar gott (í minningunni), þegar kveikt var á því spilaði það stutta útgáfu af þemalagi teiknimyndaþáttanna sem endaði með mjög tölvugerðri rödd sem öskraði „Cowabunga!„. Spilinu var meira að segja skipt í borð með endaköllum og öllum pakkanum, en ég man að ég komst aldrei fram hjá Skrekknum sjálfum, enda fáránlega erfiður andstæðingur.

Ég myndi alla vegana ekki vilja mæta honum í dimmu húsasundi

 Það voru samt tölvuspil sem voru frekar vinsæl hérna á Íslandi og víðar sem skáru sig úr þegar kom að gæðum, en það voru Game & Watch spilin. Game & Watch spilin voru framleidd af Nintendo á árunum 1980-1991, en í heildina voru gefin út 60 slík tölvuspil og af þeim seldust um það bil 43 milljón eintaka um allan heim. Eins og nafnið á spilunum gefur til kynna þá eru Game & Watch spilin bæði tölvuleikur og úr, en á öllum spilunum er klukka sem er meira að segja hægt að stilla til að láta vekja sig. Sum tölvuspilin voru flöt með einum skjá, meðan önnur lokuðust eins og samlokur og voru með tvo skjái, en grunnurinn að hönnuninni á þeim spilum átti eftir að vera notuð aftur þegar Nintendo DS tölvan var framleidd.

 Ég man eftir þó nokkrum týpum af þessum spilum, en af einhverri ástæðu var yfirleitt til eitt svona spil á flestum heimilum þegar ég var krakki, og flestir áttu samlokuspilin með tveimur skjáum. Heima hjá mér var til dæmis til brúnt Donkey Kong 2 spil, en ég verð reyndar að viðurkenna að ég spilaði það ekki mikið þar sem gamli famiklóninn minn var kominn inn á heimilið þegar spilið birtist. Því miður hefur gamla Donkey Kong 2 spilið týnst í gegnum tímans rás, en ég hef á seinni tímum náð að sanka að mér þrem öðrum gömlum Game & Watch tölvuspilum, en þau spil eru; Oil Panic, Donkey Kong og Safebuster.

Donkey Kong (1982)

Þetta tölvuspil fékk ég fyrir nokkrum dögum síðan frá ömmu gömlu. Ég mundi eftir því að hafa spilað þennan leik þegar ég var krakki í sveitinni og spurði hvort hún ætti það ennþá til. Auðvitað mundi hún eftir spilinu og gróf það upp úr skúffu fyrir mig og gaf mér það. Það sést vel á þessu spili að það hefur fengið mikla spilun í gegnum árin, það er alsett grunnum rispum og klemman sem á að halda spilinu lokuðu er brotin af. Það skiptir samt engu máli, því af öllum Game & Watch spilum sem ég hef spilað er þetta það lang skemmtilegasta. Leikurinn er í rauninni hálfgerð endurgerð af klassíska Donkey Kong, en vegna takmarkanna sem fylgja tölvuspilaleikjum er hann ekki alveg eins.

Spilarinn stýrir Mario sem þarf að hoppa og skoppa yfir olíutunnur sem úrilla górillan Donkey Kong hendir í hann. Takmarkið með leiknum er að koma Mario alla leið upp á efri skjáinn þar sem hann þarf að kveikja á rofa sem setur af stað krana. Þegar kraninn er kominn í gang þarf Mario að hoppa á hárréttum tíma upp í kranann sem lyftir honum upp að fjórum lyklum sem hanga efst á skjánum. Þegar spilaranum hefur tekist að ná öllum fjórum lyklunum brotna undirstöðurnar undan Donkey Kong og leikurinn hefst á ný. Þetta var víst fyrsta Game & Watch spilið sem notaðist við D-Pad stýripinna, en öll spilin á undan notuðust aðeins við vinstri/hægri takka.

Oil Panic (1982)

Þetta spil fann ég hvar annars staðar en í Góða Hirðirnum, en það hefur greinileg merki um mikla notkun og því miður vantar rafhlöðulokið aftan á það. Oil Panic var fyrsta Game & Watch spilið sem notaðist við tvo skjái í einu, en Donkey Kong spilið var númer tvö í röðinni. Í þessu tölvuspili stjórnar spilarinn kalli sem hleypur fram og til baka á efri skjá spilsins, en pípa fyrir ofan hann lekur olíudropum sem hann þarf að grípa í fötu. Ef kallinn nær ekki að grípa dropana þá detta þeir á eldstæði fyrir neðan hann og þá missir spilarinn líf. En það er ekki allt! Fatan fyllist eftir að þrír dropar eru komnir í hana og þá þarf kallinn að tæma fötuna, en þá þarf spilarinn að fylgjast með neðri skjánum, því þar er annar kall sem hleypur fram og til baka með aðra fötu og reynir að grípa olíuna sem spilarinn hellir niður. Spilarinn hefur enga stjórn á kallinum á neðri skjánum og því þarf maður stöðugt að vera fylgjast með báðum skjám í einu, því ef spilarinn nær ekki að tæma fötuna á réttum tíma þá hellist olían á fínt fólk sem stendur í mestu makindum neðst á neðri skjánum, en þá missir spilarinn líka líf.

Það sem ég elska við þetta spil er hvað grafíkin (ef grafík má kalla) er skemmtileg. Allar fígúrurnar í spilinu eru mjög skemmtilega og fyndið teiknaðar. Til að mynda þegar spilarinn hittir ekki í olíutunnuna á neðri skjánum og olían lendir á fólkinu á götunni, þá gjörsamlega snappar fólkið og það sést greinilega að það er ekki par sátt við það að vera útatað í olíu. Mér finnst frekar merkilegt hve miklu er hægt að koma til skila með svona einföldum teikningum, en það er eitthvað við grafíkina í þessu spili sem fær mig til að brosa.

Safebuster (1988)

Unnusta mín gaf mér þetta tölvuspil, en það var víst mikið spilað af systkinum og foreldrum hennar þegar hún var lítil. Þetta spil er um sex árum yngra en hin tvö spilin en heldur sig samt við svipaða formúlu og breytir voðalega litlu. Safebuster er í rauninni mjög líkt Oil Panic í spilun. Spilarinn er öryggisvörður í banka sem þarf að færa sig fram og til baka á neðri skjá spilsins, og grípa sprengjur sem bankaræningi á efri skjá spilsins hendir niður í sífelldri tilraun til að sprengja upp öryggishvelfingu bankans. Spilarinn getur gripið allt að þrjár sprengjur í einu en þá þarf hann að hvolfa úr sprengjudallinum sínum til hliðanna á skjánum. Þessi leikur er í raun aðeins einfaldari, og jafnvel auðveldari en Oil Panic, að því leyti að spilarinn þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvar og hvenær hann losar sig við sprengjurnar, en í Oil Panic er það einmitt helmingurinn af erfiðleikastigi leiksins.

Umbúðirnar á spilinu eru líka öðruvísi en á hinum tveim eldri spilunum. Á gömlu spilunum er aðeins nafn spilsins skrifað utan á það á silfruðum bakgrunni, en á Safebuster er búið að teikna öryggisvörðinn og bankaræningjann í miðju sprengjukasti fyrir framan bankahvelfingu, á mjög teiknimyndalegan máta. Ég er eiginlega hrifnari af umbúðunum á þessu spili því myndin gefur því vissan sjarma og maður fær strax smá hugmynd um hvað spilið gengur út á. En af þeim þrem spilum sem ég á þá er leikurinn í Safebuster lakastur.

Auglýsing fyrir Game & Watch tölvuspil í Dagblaðinu Vísir 15. desember 1982.
Spilin á myndinni eru Oil Panic og Donkey Kong.

Það er dálítið fyndið að hugsa til þess að þessi spil eru að nálgast þrítugs aldurinn. Meira að segja þegar ég var að leika mér með Donkey Kong spilið heima hjá ömmu og afa var spilið þegar að nálgast tíu ára afmælið sitt. Það er líka dálítið sérstakt að hugsa til þess hve lengi Game & Watch spilin voru framleidd, en þau voru gerð í 11 ár og seldust samt í hundruð þúsunda tali hvert og eitt þrátt fyrir að vera í raun byggð á fremur úreldri tækni. En þegar maður tekur svona Game & Watch spil og ber það saman við tölvuspilin sem er hægt að fá í barnamáltíðum á McDonalds þá sést gæðamunurinn greinilega. Hérna held ég á næstum 30 ára gömlum tölvuleik og hann virkar jafn vel og hann gerði þegar hann kom nýr úr kassanum þrátt fyrir að hafa fengið reglulega spilun í öll þessi ár. Ég efast um að það sé hægt að segja það sama um öll kínaspilin sem maður sér í Toys R Us í dag.

Eitt samt sem ég verð að koma á framfæri áður en ég segi þetta gott. Ef þið eigið svona spil niðrí skúffu og langar allt í einu að spila það eftir að hafa lesið þessa ágætu bloggfærslu þá eigið þið eflaust eftir að lenda í sama veseni og ég lenti í. Spilin notast öll við svona lítlar hnapparafhlöður eins og er ekki óalgengt að finna í gömlum tölvuúrum og því líku, en er mjög óalgengt að finna yfir höfuð í búðum. Rafhlöðurnar í þessi spil fást nefnilega ekki hvar sem, og þar sem þær fást eru þær RÁNDÝRAR! Ég sá tvær svona rafhlöður í pakka í Elko fyrir ekki svo löngu síðan á eitthvað í kringum 700 krónur! Þannig ef ykkur vantar ódýrar rafhlöður mæli ég með því að þið lítið í USA Superstore í Smáralindinni, en þar fann ég 10 svona rafhlöður í pakka á 298 krónur. Bara svona smá til að hafa í huga.

Takk fyrir lesturinn!

Heimildir: Wikipedia, Gamesradar.

22 bestu leikirnir á Sinclair Spectrum 48k

$
0
0

Leikjatölvan ZX Spectrum verður 30 ára núna í ár. Af því tilefni ætla ég, sem gamall leikjanörd, að leyfa mér smá nostalgíu og rifja upp bestu leikina sem voru gefnir út á Sinclair Spectrum 48k á fyrri hluta áttunda áratugarins þegar tölvan var upp á sitt besta.

Að spila leikina í dag getur verið ansi pirrandi ef maður er vanur nútímaleikjum og ástæðan er tvíþætt. Sú fyrri er augljós; grafík, hljóð og stærð leikja var ekki upp á marga fiska. Í annan stað voru þeir mun erfiðari en leikir í dag þ.e.a.s. leikir voru hannaðir þannig að spilarinn drapst ótal sinnum áður en hann lærði á eitthvað borð eða leystir tiltekna þraut (sem er kannski ástæðan fyrir því að undirritaður er í dag aðdáandi leikja eins og Demon’s Souls og Dark Souls).

Að spila leikina í dag getur verið ansi pirrandi ef maður er vanur nútímaleikjum og ástæðan er tvíþætt. Sú fyrri er augljós; grafík, hljóð og stærð leikja var ekki upp á marga fiska. Í annan stað voru þeir mun erfiðari en leikir í dag…

Sinclair Spectrum eða ZX Spectrum kom út árið 1982 í Bretlandi og varð fljótlega vinsæl hér á landi. Sama ár kom Commodore 64 út í Bandaríkjunum og upphófst mikil samkeppni milli tölvanna. Amstrad leikjatölvan kom svo út tveimur árum seinna. En Spectrum virtist hafa vinninginn í vinsældum hér á landi og ein meginástæðan var sú að það var þvílíkt flóð af leikjum sem gengu manna á milli því það var einstaklega einfalt að afrita Spectrum leiki á kassettur og lítið um afritunarvarnir (copy protection).

Svo það sé á hreinu stendur k í Spectrum 48k fyrir kB. Það er hreint ótrúlegt að hugsa til þess í dag að leikirnir notuðu svo lítið vinnsluminni og talsvert hugmyndaflug hefur þurft til þess að búa þá til með þessum takmörkunum. Margar hugmyndirnar sem komu fram í þessum klassísku leikjum sjást enn þann dag í dag. Það er lygi líkast en leikir eru enn að koma út á þessa tölvu, en árið 2010 komu út 90 leikir.

Vendum okkur í upptalninguna og ef það er eitthvað hér sem vekur áhuga þá er auðvelt að finna þessa leiki á netinu og marga er einnig hægt að spila þar. Ein helsta síðan er World of Spectrum og þar er hægt að finna marga herma (emulators), upplýsingar um leikina og þar fram eftir götunum. Önnur er ZX Spectrum þar sem hægt er að spila leikina í vafra (notast við Java). Upphaflega ætlaði ég að hafa leikina í öfugri röð frá 22 til 1 en það er ómögulegt að gera upp á milli þeirra þar sem 30 ár eru liðin síðan ég spilaði þá síðast, þannig að listinn er í stafrófsröð:

 

Aliens

Það sem ég man helst frá þessum leik er að hönnuðurnir náðu algerlega hinu þrúgandi umhverfi og stemningu Alien myndanna, sem er einstakt afrek fyrir þennan tíma (ekki skemmdi fyrir að maður hafði frjótt ímyndarafl á þessum tíma). Spilarinn stjórnaði liðinu Ripley, Bishop, Vasquez og fleirum og gekk um geimskipið, opnaði dyr og skaut á Alien skrímslin og reynir að verða ekki étinn.

 

Arkanoid

Leikur sem byggir á Breakout leikjunum þar sem spilarinn er með „spaða“ sem hann hreyfir til vinstri og hægri og kúlu sem eyðir múrsteinum við snertingu. Það er heilmikill fjölbreytileiki í Arkanoid miðað við forvera hans; spaði spilarans þ.e.a.s. geimskipið getur skotið, sumir múrsteinarnir hverfa ekki fyrr en eftir margar snertingar, spilarinn getur fengið fleiri en eina kúlu o.s.frv.

 

Atic Atac

Það má segja að þetta sé einn af fyrstu Diablo leikjunum. Spilarinn velur sér wizard, knight eða serf og gengur um kastala í leit að fjársjóðum og leið út. Spilarinn missir kraft ef hann snertir eitthvað af fjölmörgu skrímslunum sem eru í kastalanum og líka smátt og smátt með tímanum, en hægt er að finna mat til að ná lífskraftinum upp. Tímamótaleikur þegar hann kom út.

 

Boulder Dash

Frumlegur leikur þar sem spilarinn er hetjan Rockford, hálfgerð mannleg moldvarpa sem grefur sig í gegnum jörðina til þess að ná fjársjóðum. Hætturnar eru stórir grjóthnullungar, skrímsli og gildrur. Ótal framhaldsleikir voru gerðir og Bomberman serían sem varð vinsæl seinna líktist þessum leik mjög.

 

Chuckie Egg

Chuckie Egg byggði á eldri pallaleikjum (platform) og þá helst Manic Miner. Spilarinn þarf að safna 12 eggjum í hverju borði áður en tíminn rennur út og leikurinn varð erfiðari og erfiðari (það voru örfáir sem kláruðu leiki eins og þessa, það var t.d. enginn vistunarmöguleiki).

 

Commando

Byggt á Arnold Schwarzenegger mynd með sama nafni. Spilarinn er málaliði sem ræðst inn á óvinasvæði með hríðskotabyssu og handsprengjur. Af hverju? Því það er það sem Arnold gerði! Í stíl við myndina slátrar spilarinn fullt af óvinum sem eins-manns-her og þeir verða erfiðari því lengra sem spilarinn kemst.

 

Deathchase

Þessi leikur er gott dæmi um það sem hægt er að gera með litlu vinnsluminni, því að þessi notaði ekki meira en 16k. Spilarinn er mótorhjólakappi sem eltist við aðra mótorhjólakappa í gegnum skóg. Ef spilarinn klessir á tré  drepst hann. Þetta er allt og sumt en þetta virkaði. Ef það er eitt orð sem lýsir þessum leik þá er það hraði eða eins og mikill spekingur sagði eitt sinn: „Hraði, ég er hraði“ (Leiftur McQueen).

 

Football Manager

Líklega fyrsti sinnar tegundar, enda gefinn út 1982. Serían hélt áfram nokkra leiki en var svo endurvakin í þeirri mynd sem þekkist núna árið 2005. Fyrir fótboltaunnendur var þetta alger snilld. Spilarinn valdi lið, keypti og seldi leikmenn, raðaði í lið, fylgdist með gróða og fékk að sjá helstu atburði hvers leiks fyrir sig í „Óla prik“ grafík. Einfalt og gott.

 

Frankie Goes to Hollywood

Öðruvísi ævintýraleikur þar sem spilarinn labbar um í borginni Liverpool, en hljómsveitin FGTH var þaðan. Takmark spilarans er að komast til Pleasuredome (plata FGTH frá 1985 hét Welcome to the Pleasuredome). Á leiðinni þarf spilarinn að komast í gegnum nokkra smáleiki (minigames) eins og morðmál sem þarf að leysa. Spilarinn þarf að ná 99% árangri í eftirfarandi „eiginleikum“: sex, war, love and faith. Ég hlustaði á nokkur gömul FGTH og þeir eru bara ansi þéttir ennþá.

 

Jetpac

Jetpac er skotleikur með pallaleiksívafi og getur spilarinn svifið um með aðstoð „jetpack“ sem hann ber á bakinu. Í hverju borði þarf spilarinn að finna eldsneyti fyrir geimflaugina sína og skjóta niður alls kyns geimverur sem ráðast á hann í hrönnum. Leikurinn snýst um stig og á þessum tíma var mikið keppt um stigamet.

 

Jetset Willy

Framhald af Manic Miner, en nú var spilarinn í nokkurs konar pallaheimi, í stað þess að þurfa að klára eitt borð (skjáfylli) til að komast á það næsta mynduðu borðin einn heim sem spilarinn gat ferðast á milli. Þetta var byltingarkennt á þessum tíma. Leikurinn var einnig þekktur fyrir það að vera fyrstur með afritunarvernd í formi heilmikils litaspjalds (sjá mynd) sem fólk dundaði sér svo við að kópera og selja sjálft. Hann var líka þekktur fyrir að vera einn af fyrstu leikjunum með mikið magn lykilorða (cheat codes) inni í leiknum sem gerði ýmsa hluti mögulega svo sem endalaus líf o.s.frv.

 

Loderunner

Svo einfalt samt svo mikil snilld. Hérna snýst allt um spilunina. Spilarinn er Óli prik fígúra sem þarf að ná í gullklumpa til að klára hvert borð fyrir sig. Allan tímann eru aðrir Óli prik að eltast við spilarann of ef þeir snerta hann þarf að byrja upp á nýtt. Borðin samanstanda af múrsteinum, stigum og línum og einstaka sinnum gildrum. Leikurinn er mjög vel úthugsaður en það sem gerði hann einstakann á sínum tíma er að maður gat búið til borð fyrir vini sína. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði séð eitthvað svoleiðis og það var alveg yndislegt að skiptast á að gera djöfulleg borð og spila borð annarra.

 

Lords of Midnight / Doomdark’s Revenge

Oblivion / Skyrim síns tíma. Hlutverkaleikur þar sem spilarinn ferðaðist um stórt landsvæði og skoðaði hella, turna, þorp og fleira á ferð sinni. Að sjálfsögðu var hann takmarkaður miðað við leiki nútímans en hönnuðurnir byggðu upp áhugaverðan heim með því að láta mikið lesefni fylgja leikjunum.

 

Manic Miner

Matthew Smith var hálfgerð rokkstjarna eftir að hafa búið þennan leik til og Jet Set Willy sem voru öðruvísi pallaleikir en sést höfðu áður. Manic Miner var sá fyrsti með tónlist í leiknum sjálfum og heilmargir leikir sem komu seinna voru byggðir á honum. Skondið að hugsa til þess að sú mekaník að flýta sér yfir eitthvað svæði áður en jörðin gaf eftir og spilarinn hrapaði hafi fyrst (líklega) komið á sjónarsviðið þarna og er enn notað í dag í t.d. Uncharted leikjunum. Það er áræðanlega fullt af svona litlum spilunarfítusum sem koma frá einhverjum af þessum gömlu leikjum.

 

Maziacs

Völundarhúsleikur með hlutverkaspilsívafi. Völundarhúsið er aldrei eins í hvert sinn sem  spilaður er nýr leikur og til að leysa það þarf spilarinn að finna fjársjóð. Skrímsli eru á leiðinni og spilarinn getur fundið sverð sem hægt er að nota einu sinni. Á leiðinni finnur hann fanga sem geta lýst réttu leiðina upp í smá tíma. Einfaldur og skemmtilegur leikur.

 

Sabre Wulf / Underwurlde / Knight Lore

Fyrirtækið Ultimate Play the Game var gæðamerki í þá daga og þetta var aðalserían þeirra. Þessir leikir voru völundarhúsa-leikir og voru þekktir fyrir það að vera með góða grafík og litadýrðin var mikil. Völundarhúsaleikir voru algengir á Spectrum og oftar en ekki í 3D sem er eins og áður sagði byggðir á ísómetrísku sjónarhorni.

 

Stop the Express

Það var eitthvað mjög ferskt við þennan leik þegar hann kom út á sínum tíma. Þú varst strákur með ljóst og mikið hár (spurning hvort þetta hafi verið Cloud Strife að stimpla sig inn) sem hljópst ofan á lest og reyndir að ná fyrsta vagninum. Á meðan þarftu að flýja illmenni og beygja þig á réttum augnablikum. Einnig geturu gripið fugla og sleppt þeim á vondu kallana sem gerir það að verkum að þeir detta af lestinni. Þetta var svínslega erfitt eins og allt annað á þessum tíma en mjög skemmtilegt.

 

The Hobbit

Textaævintýri en með einni mynd í hverju borði fyrir sig sem á þessum tíma þýddi stórkostleg grafík. Textaævintýri virkuðu þannig að leikurinn stjórnaðist út frá því sem spilarinn skrifaði. Ef hann skrifar „go east“ fer hann austur, ef hann skrifar „open door“ þá opnast hurðina o.s.frv.

Það að geta verið Fróði var nóg fyrir marga upprennandi nörda. Á þessum tíma var ekki hægt að fara á netið og finna lausnina og þar að auki passaði fólk sig á að gefa ekki upp of mikið í tölvublöðum o.s.frv. Þannig að þú og vinir þínir voru stundum marga daga  að leysa einhverjar þrautir til að komast áfram í leiknum.

Setningin „Thorin sits down and sings about gold“ sást ósjaldan og varð seinna hálfgert „internet meme“ hjá þeim sem þekkja leikinn.

 

Tir Na Nog / Dun Darach

Nöfnin vísa til írskra goðsagna og þessir leikir eru ævintýraleikir eða arcade adventure eins og svo margir á þessum tíma. Þú ert Cuchulainn, og ert í raun dauð sál sem ferðast um í landinu Tir Na Nog. Leikheimurinn er mjög stór miðað við aðra á þessum tíma og fjölbreytilegur, hægt er að finna hella, ferðast í gegnum skóga og þorp osfrv. Leysa þarf margar erfiðar þrautir til að komast áfram í leiknum.
Seinni leikurinn, Dun Darach, kom út seinna en fjallar um hetjuna Cuchulainn áður en hann dó og atburðina sem leiddu til dauða hans. Semsagt mjög háfleygt efni miðað við þessa frumstæðu leikjavél.

 

T.L.L. – Tornado Low Level

Spilarinn stjórnar Tornado flugvél sem flýgur um og leitar uppi hernaðarskotmörk. Leikurinn þótti flottur að því leyti að hann var í 3D (sem þýddi ísómetrískt sjónarhorn). Spilarinn þarf að fljúga lágt til að hitta á skotmörk og passa sig að rekast ekki á byggingar og annað sem á vegi hans verður.

 

Trashman

Trashman er forveri Paperboy leikjanna sem margir ættu að kannast við. Spilarinn er ruslamaður sem er sendur í ákveðna götu til að safna ákveðnum fjölda ruslatunna og tæma úr þeim í ruslabílinn. Spilarinn getur bankað uppá hjá fólki og fengið þjórfé, hann þarf að vara sig á hundum og bílum og þar fram eftir götunum (hehe götunum).

 

Yie Ar Kung-Fu

Slagsmálaleikur og Tekken síns tíma. Spilarinn er nokkurs konar Bruce Lee og berst á móti ýmsum óvinum. Svo sem ekki mikið annað að segja en spilunin var skemmtileg og leikurinn kom út þegar Bruce Lee myndirnar voru vinsælar hjá ungum strákum.

 

 

 

 

- Steinar Logi

Myndir: World of Spectrum

Hvað gerir leikjatölvur retro?

$
0
0

LNBanner

Þeir sem spila gamla tölvuleiki eru jafnan kallaðir retrogamers á ensku, en orðið retro gefur til kynna að verið sé að spila eitthvað sem er orðið gamalt en jafnframt klassískt. Eftir að ég fann þessa Sega Saturn leiki um daginn hef ég mikið verið að velta því fyrir hvað gerir tölvu eða tölvuleik retro? Samkvæmt Wikipediu þá er retro: „… a culturally outdated or aged style, trend, mode, or fashion, from the overall postmodern past, that has since that time become functionally or superficially the norm once again.“ Ég veit ekki alveg með seinustu setninguna í þessari skilgreiningu. Hún á alla vegana ekki við retrogaming að mínu mati, enda hef ég ekki séð nýjar leikjatölvur grípa til þess að gefa út leiki á hylkjum aftur eða snúa við þróuninni frá þráðlausum fjarstýringum yfir í snúrufjarstýringar.

 Ég hef mínar hugmyndir um hvað gerir tölvur og þeirra fylgihluti retro, en ég byggi það álit algerlega á minni skoðun og það þurfa ekki allir að vera sammála því. En þeir eiginleikar sem retrotölvur búa yfir að mínu mati eru eftirfarandi:

  1. Tölvan er alla vegana tveggja leikjatölvukynslóða gömul. Tölvurnar sem eru í gangi í dag eru að sjálfsögðu nýja kynslóðin og tölvurnar sem voru þar á undan eru bara gamla kynslóðin. Allt sem kemur þar á undan hefur möguleika á að vera retro.
  2. Tölvuleikirnir fyrir tölvuna eru á leikjahylkjum, diskettum, kassettum, eða einhverjum öðrum miðli en er normið í dag sem eru geisladiskar, DVD og BluRay (svo ekki sé minnst á stafrænar leikjaútgáfur).
  3. Tölvuleikirnir fyrir tölvuna eru í tvídídd. Leikir geta samt verið í þrívídd ef um er að ræða notkun á vector graphics eða svokallaða gerviþrívídd sem er í raun tvívídd.
  4. Öllum uppfærslum og stuðning við tölvuna hefur verið hætt af framleiðenda eða umboðsaðila tölvunnar. Það er ekki lengur hægt að kaupa nýja hluti fyrir hana nema um sé að ræða klónframleiðslu eða gamla hluti sem hafa gleymst í geymslu.

Þessar skilgreiningar mínar eru byggðar á minni tilfinningu fyrir því hvað retro tölvuleikir og tölvur eiga að vera, og ná þær allar yfir fjórðu kynslóð leikjatölvna og þær kynslóðir sem koma á undan. En þessi skilgreining býður upp á visst vandamál þegar kemur að fimmtu kynslóð leikjatölvna. Leikjatölvurnar sem tilheyra fimmtu kynslóðinni eru; Sega Saturn, Panasonic 3DO, Sony Playstation, Nintendo 64 og Atari Jaguar. Allar tölvurnar falla undir fyrstu og fjórðu skilgreinguna, en þegar kemur að skilgreiningu tvö og þrjú vandast málið. Aðeins tvær af þessum fimm tölvum notuðust ekki við geisladiska sem leikjamiðil, en það voru Nintendo 64 og Atari Jaguar. Allar tölvurnar buðu hins vegar upp á leiki í sannri þrívídd, en þó mis mikið. Þannig að mikið af fimmtu kynslóðinni eru alveg á mörkunum (samkvæmt mínu mati) með að vera gullstimplaðar retro tölvur.

Er hægt að segja að leikjatölvur séu mis mikið retro, eða er þetta spurning um að vera retro eða vera ekki retro. Ég er samt dáldið ósamkvæmur sjálfum mér, því mér finnst Sega Saturn, Panasonic 3DO og Atari Jaguar vera miklu meiri retro tölvur en Nintendo 64 og Playstation. En það hefur örugglega mikið með það að gera að þessar þrjár tölvur voru ekki næstum jafn vinsælar og hinar tvær, og það að þessi fyrirtæki eru ekki að framleiða leikjatölvur í dag. Að því leyti finnst mér eins og Dreamcast tölvan eigi að hafa sess meðal retro leikjatölvna, en samt uppfyllir hún ekki einu sinni fyrsta skilyrðið sem ég sjálfur set upp, enda af sömu kynslóð og Playstation 2 og Xbox.

Svo er það líka söfnunargildið. Sjálfsagt hefur það minnst með þessar pælingar að gera, en hlutir sem eru sjaldgæfir eða óalgengir eru einhvern veginn meira retro í mínum huga. Þegar til dæmis NES og Mega Drive tölvurnar voru hvað vinsælastar hérna á Íslandi, þá geri ég ráð fyrir að þær hafi yfirleitt verið keyptar af foreldrum fyrir krakkanna sína. En í dag með aukinni neyslumenningu og uppkominni kynslóð af fullorðnum tölvuleikjaspilurum þá eru tölvurnar meira keyptar af spilurunum sjálfum. Þeir halda þá jafnan lengur utan um tölvurnar eða koma þeim til annara í gegnum sölusíður á netinu (Ég mana ykkur til að fara á Bland.is og leita að „PS2″). En gömlu NES tölvurnar hafa eflaust endað í geymslu og síðan á haugunum eftir að ungarnir voru flognir úr hreiðrinu, enda þá frekar en í dag verið álitnar sem bara enn eitt raftækið sem hafði ekki tilgang lengur, eins og gamalt 14″ túbusjónvarp, vídjótæki eða útvarp án geislaspilara.

Ég hugsa að eftir nokkur ár þegar áttunda kynslóð leikjatölvna er komin út, eigi krakkar sem ólust upp með sjöundu kynslóðinni (PS3/Xbox 360/Wii) og sáu kannski rétt svo í rassgatið á sjöttu kynslóðinni (PS2/Dreamcast/Xbox/GameCube) eftir að líta á sjöttu kynslóðina sem retro tölvur. Atari, NES, Mega Drive og tölvur af fjórðu kynslóð og neðar verða þá jafnvel álitnar sem forngripir frekar en eitthvað sem er retro. svona svipað og ég horfi á gömlu Pong tölvurnar frá áttunda áratugnum. Ég efa samt að ég eigi nokkurn tíman eftir að geta litið á til dæmis Playstation 2 sem retrovél, enda átti annar hver maður svona tölvu og svo er til svo mikið af þessu að söfnunargildið er nánast ekkert (enn sem komið er).

Það er samt greinilega ekki neitt eitt rétt í hvað er retro og hvað ekki, enda allt frekar huglægt og fer eftir nostalgíuviðmiðum hvers og eins. En ef einhver hefur álit á þessum hugleiðingum mínum þá hefði ég gaman af að heyra það.

Takk fyrir lesturinn!

Nomolos: Storming the Catsle – Nýr Nintendo NES leikur

$
0
0

Fyrir nokkrum dögum síðan kom út nýr leikur fyrir gömlu gráu Nintendo NES leikjatölvuna. Leikurinn heitir Nomolos: Storming the Catsle, en leikurinn var hannaður af Gradual Games og er gefinn út af Retrozone.

Söguhetja leiksins er kötturinn Solomon, sem lendir í þeim vandræðum að fjólublár flóðhestur úr annari vídd rænir vinkonu hans, henni Snow. Solomon veitir flóðhestinum eftirför yfir í hina víddina þar sem hann breytist í Nomolos, kattarstríðsmann með sverð og brynju. Leikurinn skiptist í 12 borð, inniheldur 5 mismunandi endakalla og fjöldan allan af aukakröftum og vopnum sem Nomolos getur safnað.

Tónlistin í leiknum er ekki af verri endanum, en fjölmörgum klassískum tónverkum frá barokktímabilinu hefur verið breytt í kubbatónlist fyrir leikinn, og má meðal annars finna lög eftir Johann Sebastian Bach og Domenico Scarlatti.

Leikurinn var framleiddur með nýjum íhlutum sem þýðir að engir gamlir NES leikir létu lífið til þess að Nomolos gæti litið dagsins ljós. Þó voru aðeins 100 eintök framleidd af leiknum og því er ekki ólíklegt að leikurinn seljist upp fljótlega í hendur safnara víðsvegar um heiminn. Fyrir þá sem hafa áhuga er hægt að nálgast eintak af leiknum HÉR á síðu Retrozone, en leikurinn kostar tæpar 4000 kr.

- KÓS

Topp 10 rauntímaherkænskuleikir seinustu aldar

$
0
0

Allt frá því að ég byrjaði að spila tölvuleiki hafa rauntímaherkænskuleikir (Real Time Strategy Games eða RTS) verið mitt uppáhald. Það er eitthvað við það að hafa yfirsýn yfir víðáttumikinn orrustuvöll og stýra fjöldanum öllum af hermönnum sem höfðar til mín, og því hef ég spilað gífurlegan fjölda af slíkum leikjum í gegnum tíðina. Á seinustu árum hefur þróunin í rauntímaherkænskuleikjum verið gífurlega mikil bæði í grafík og spilun. Spilarar geta nú valið um að spila risastórar sögulegar orrustur í Total War seríunni eða minni skærur í Dawn of War leikjunum. Ef spilarar vilja hraðan og jafnan leik geta þeir farið í Starcraft 2, eða þá Company of Heroes ef þeir vilja hægari og óútreiknalegri leiki.

Staðreyndin er sú að til að byrja með voru rauntímaherkænskuleikir oft á tíðum keimlíkir, og aðeins þema eða saga leiksins skar þá í sundur. Þetta var að sjálfsögðu ekki algilt, en eins og gengur og gerist í leikjaiðnaðinum koma oft fram nýjir leikir sem bæta og breyta forminu til frambúðar, á meðan aðrir leikir byggja á gömlum reyndum hlutum og gera gott úr því. Í þessari grein verður farið yfir 10 rauntímaherkænskuleiki sem voru gerðir fyrir seinustu aldamót. Vert er að minnast á það að þessi listi er byggður á mínu persónulegu mati og eftir að hafa tekið til greina u.þ.b. 20 rauntímaherkænskuleiki gerða fyrir árið 2000, þá stóðu þessir 10 upp úr. Ekki var aðeins tekið tillit til góðrar spilunar, heldur hafði frumleiki, arfleið, tilkoma nýjunga og fleira áhrif á val mitt á 10 bestu rauntímaherkænskuleikjum seinustu aldar.

#10 – Dune II: Battle for Arrakis (Westwood Studios, 1992)

Dune II var gefinn út af Westwood Studios árið 1992, og er sögusvið leiksins lauslega byggt á bíómynd David Lynch; Dune (sem er svo aftur byggð á skáldsögum Frank Herberts). Í leiknum takast á þrjár voldugar ættir um yfirráð á plánetunni Arrakis, betur þekkt sem Dune, sem er eina uppspretta hins gífurlega verðmæta efnis; Spice Melange. Spilarinn getur valið eina af þessum þrem ættum til að spila í leiknum, en valið stendur á milli hinna grimmu Harkonnen, lævísu Ordos og diplómatísku Atreides. Leikurinn kom fram með margar nýjungar sem sjást enn í rauntímaherkænskuleikjum í dag. Til að mynda þörfina á því að safna hráefnum til að framleiða hergögn, mismunandi spilanleg lið hvert með sín sérkenni, og á milli borða birtist kort af heiminum þar sem spilarinn velur næsta borð sem hann vill spila. Dune II er í raun langafi allra rauntíma herkænskuleikja dagsins í dag, enda einn af fyrstu leikjunum sem notaðist við það leikjaform, og er almennt talinn hafa lagt grunninn að því sem rauntíma herkænskuleikir eru í dag.

#9 – Warcraft: Orcs & Humans (Blizzard, 1994)

Warcraft: Orcs & Humans er fyrsti leikurinn í hinni margfrægu Warcraft leikjaseríu, þar sem menn, orkar og önnur skrímsli takast á um yfirráð í hinum stríðshrjáða heimi Azeroth. Leikurinn var einnig fyrsti rauntímaherkænskuleikurinn sem tölvuleikjaframleiðandinn Blizzard bjó til, en á síðari árum hafa þeir einmitt verið einna mest frægastir fyrir það leikjaform með leikjum á við Starcraft II og Warcraft III. Lítið sem ekkert hafði komið út af rauntímaherkænskuleikjum frá því að Dune II steig fram á sjónarsviðið og því varð Warcraft fljótt gífurlega vinsæll. Þrátt fyrir góða grafík og spilunareiginleika, var Warcraft í sjálfu sér ekkert sérstaklega frumlegur rauntímaherkænskuleikur, en kom þó fram með nokkrar nýjungar. Meðal þeirra voru borð sem voru búin til af handahófi af tölvunni og hægt var að spila utan söguþráðar leiksins (Skirmish Games). Það var þó ekki það sem gerði Warcraft að frábærum leik heldur var það saga leiksins sem kom meira og meira í ljós með hverju spiluðu borði, en sú saga lagði einmitt grunninn að þeim viðamikla söguþræði sem milljónir manna spila eftir daglega í fjölspilunarleiknum World of Warcraft.

#8 – Dark Reign: The Future of War (Activision, 1997)

Dark Reign tekur sér stað í fjarlægri framtíð á plánetu sem hefur verið gjöreyðilögð eftir langt og blóðugt borgarastríð á milli The Freedom Guard og The Imperium. Í söguþræði leiksins er spilaranum útvegað það hlutverk að endurleika þær helstu orrustur sem áttu sér stað í borgarastríðinu, svo hann geti að lokum ferðast aftur í tímann og sigrast á báðum hliðum hinna stríðandi fylkinga til að koma í veg fyrir eyðingu plánetunnar. Ólíkt mörgum öðrum rauntímaherkænskuleikjum þessa tíma eru liðin tvö sem spilarinn getur stjórnað með gjörólíkan spilunarstíl. Til að mynda eru The Imperium með aðgang að öflugari en jafnframt fámennari og hægari hergögnum, á meðan The Freedom Guard eru fjölmennari og hraðari, en á sama tíma mun veikbyggðari. Dark Reign var einnig með mjög þróað og flott leiðarpunktakerfi (Waypoint System) sem gerði spilararnum kleift að senda hermenn í könnunarleiðangra eftir fyrirfram ákveðinni leið. Spilarinn gat einnig ákveðið hegðun hermannanna með því að stilla hvort þeir börðust fram í rauðan dauðan eða flúðu þegar þeir áttu lítið líf eftir. Þetta gaf spilaranum svigrúm til þess að einbeita sér að öðrum hlutum á meðan hermenn hans stjórnuðu sér að miklu leyti sjálfir, en svipuð leiðarpunktakerfi áttu eftir að koma fram í öðrum leikjum síðar.

#7 – Age of Empires II: The Age of Kings (Microsoft, 1999)

Age of Empires II: The Age of Kings er seinni leikurinn í hinni gífurlega vinsælu Age of Empires seríu sem hefur getið af sér fjöldan allan af framhaldstitlum og jafnvel öðrum rauntímaherkænskuleikja seríum. Leikurinn er virkilega stórbrotin, en í honum gefst spilaranum tækifæri á að spila eina af 13 sögulegum þjóðum úr mannkynssögunni og fara með henni í gegnum þúsund ár af hinum dimmu miðöldum. Á sínum tíma var leiknum líkt við blöndu af Warcraft og Civilization. Það er að vissu leyti nokkuð góð líking þar sem Age of Empires II hefur allt það sem gerir góðan rauntímaherkænskuleik, og sameinar það við þá tilfinningu sem maður fær í Civilization að verið sé að byggja upp og fylgja eftir stóru sögulegu veldi. Þrátt fyrir að þjóðirnar 13 hafi haft aðgang að keimlíkum hergögnum, hafði hver þjóð samt sem áður nokkur persónuleg einkenni sem hinar höfðu ekki. Hver þjóð hafði líka sín eigin hljóð. Sem dæmi um það þá sögðu vinnumenn hjá Víkingunum “fiskimaðr” þegar þeim var skipað að veiða, og hermenn sem voru sendir í orrustu öskruðu “til bardaga”. Age of Empires II tók í raun allt það sem gerði Age of Empires að góðum leik og gerði það betra, og lagaði mikið af því sem hafði misfarist í fyrri leiknum. Þetta skilaði sér í því að eftir aðeins þrjá mánuði í sölu hafði leikurinn selst í 2 milljón eintökum um allan heim, og unnið til fjölda verðlauna.

#6 – Z (Bitmap Brothers, 1996)

Í Z tekur spilarinn við stjórn hers af rauðum vélmennum sem eiga í stríði við her af bláum vélmennum. Ástæðan fyrir stríðinu? Engin virðist vita það, en svo lengi sem vélmennin fá nóg af eldflaugaeldsneyti að drekka þá er þeim sama fyrir hvað þau berjast. Z var einn frumlegasti rauntímaherkænskuleikur sem komið hafði fram á sjónarsviðið í langan tíma, og enn í dag hefur enginn leikur náð að leika spilunarstíl Z eftir. Í staðinn fyrir að safna hráefnum til að byggja her eins og var venjan í öðrum leikjum, þá var takmarkið í Z að ná og halda svæðum þar sem verksmiðjur dældu út vélmennum og öðrum orrustutækjum með reglulegu millibili. Þetta gerði það að verkum að spilarinn þurfti að vera í stanslausri sókn til að berjast um framleiðslusvæðin, öfugt við það þema sem var í öðrum herkænskuleikjum þar sem yfirleitt var nóg að tryggja hráefnaöflun og spila nægilega sterka vörn þangað til herinn var orðinn nógu kraftmikill til að valta yfir andstæðinginn. Z er líka einstaklega erfiður leikur, og ekki hjálpaði það þegar manns eigin vélmenni fara að hrópa ókvæðisorð að manni þegar illa gengur. Annar sterkur hluti leiksins var hve vel hann var hannaður, en umgjörð og grafík leiksins var mjög flott á sínum tíma, og það er aldrei langt í húmorinn bæði í senunum á milli borða og á vígvellinum sjálfum.

#5 – Command & Conquer: Red Alert (Westwood Studios, 1996)

Red Alert er annar leikurinn í Command & Conquer leikjaseríunni, en saga leiksins tekur sér þó stað á undan þeim atburðum sem orsökuðust í fyrsta leiknum. Árið 1946 fer Albert Einstein aftur í tímann og hittir Adolf Hitler. Þessi fundur raskar mannkynssögunni á þann veg að Nasistarnir komast aldrei til valda í Þýskalandi, og Sovétríkin undir stjórn Jósefs Stalíns verða að ofurveldi sem tekur yfir stóran hluta heimsins. Í leiknum fær spilarinn þann valkost að spila sem Sovétríkin eða sem Bandalagsríkin sem reyna að sigrast á útbreiðslu kommúnismans. Liðin tvö eru missterk á viðkomandi sviðum. Þannig hafa Sovétríkin mun sterkari land- og flugher, á meðan Bandamenn fá sterkari sjóher, ásamt ódýrari og fjölmennari landher. Red Alert var einn af fyrstu leikjunum sem náði vinsældum í netspilun. Þar hjálpaði mikið að notendaviðmót leiksins var mjög gott fyrir sinn tíma, þar sem hægt var að setja valdar sveitir á númertakka lyklaborðsins og framleiðslubyggingar gátu tekið við pöntunum upp á nokkra hermenn í einu í stað þess að geta bara framleitt einn í senn. Þetta er að sjálfsögðu allt fídusar sem eru sjálfgefnir í rauntímaherkænskuleikjum í dag, en þóttu nýjung þegar Red Alert kom út.

#4 – War Wind (Strategic Simulations, 1996)

War Wind er einn af þessum leikjum sem maður gleymir ekki svo glatt, en það er að mörgu leyti því að þakka hve frumlegur leikurinn var á svo mörgum sviðum. Til að byrja með er saga og umhverfi leiksins mjög flott, en leikurinn tekur sér stað á plánetunni Yavaun þar sem hinar fjórar geimverumenningar; Tha’Roon, Obblinox, Shama’Li og Eaggra berjast við hvor aðra. Geimverutegundirnar eru allar gjörólíkar, og spilarinn getur valið að spila söguþræði þeirra allra, en að hafa fjögur spilanleg lið í rauntímaherkænskuleik á þessum tíma var nánast óþekkt. Hermenn eru ekki beint byggðir í War Wind líkt og í öðrum leikjum. Spilarinn þarf að byggja bar þar sem vinnumenn flykkjast að og bíða eftir að verða ráðnir. Þessa vinnumenn er síðan hægt að þjálfa upp í þau hlutverk sem spilaranum vantar, hvort sem það eru hermenn, njósnarar eða galdramenn. Hvert lið um sig hafði aðgang að sömu erkitýpum af hermönnum og byggingum, en virkni þessara hluta var engu að síður fremur ólík á milli liða. Þá var umhverfi leiksins mjög lifandi… bókstaflega. Fyrir utan hermenn spilarans og óvinarins, mátti búast við fjöldanum öllum af allskyns dýrum í hverju borði sem áttu það til að ráðasta á hermenn sem flæktust inn á þeirra svæði. Meðal annara flottra hluta sem War Wind hafði yfir að búa voru farartæki sem hægt var að setja hermenn inn í, einstakar hetjur með sérstaka hæfileika sem hægt var að ráða, og ólíkt öðrum rauntímaherkænskuleikjum var hægt að fara innan í allar byggingar í leiknum. War Wind var mjög flottur leikur sem bauð upp á frábæra einspilun, en því miður var fjölspilun hans ekki upp á marga fiska, og féll hann því algerlega í skugga Warcraft II og náði aldrei almennilegum vinsældum.

#3 – Warcraft II: Tides of Darkness (Blizzard, 1995)

Warcraft II hélt áfram með frábæra sögu fyrirrennara síns þar sem orkar og menn berjast um yfirráð yfir Azeroth. Warcraft II kynnti til sögunnar tröll, dverga, dreka og álfa sem eiga sér enn í dag sess í sögu Warcraft heimsins. Spilun leiksins var að miklu leyti svipuð þeirri sem spilarar Warcraft voru vanir, en bætti þó við nokkrum fídusum sem voru ekki í fyrri leiknum. Nú gátu spilarar barist í loftunum með drekum og dvergum á fuglsbaki, og á sjónum með skipum og kafbátum. Galdrakerfi leiksins var einnig breytt, en nú höfðu galdramenn liðanna tveggja aðgang að mun fleiri og kraftmeiri göldrum sem gátu hæglega breytt stöðu bardaga ef notaðir rétt. Blizzard sáu einnig til þess við útgáfu leiksins að hægt væri að spila við aðra spilara í gegnum internetið. Þetta varð til þess að Warcraft II varð fljótt vinsæll fjölspilunarleikur, og því héldu Blizzard áfram að bæta fjölspilunarþjónustu leiksins allt fram til ársins 1999 þegar Warcraft II var tengdur Battle.net fjölspilunarþjónustu fyrirtækisins sem auðveldaði spilurum til muna að finna aðra spilara. Það má færa rök fyrir því að Warcraft II sé fjarskyldur forfaðir nútími MOBA leikja (LoL, DotA, HoN), en í leiknum voru kynntar til sögunnar hetjur sem voru mun öflugari en venjulegir hermenn. Þetta hugtak var svo útfært til að vera miðpunktur spilunarinnar í Warcraft III, sem var síðan aftur útfært með tilkomu Defence of the Ancients moddsins sem er fyrsti raunverulegi MOBA leikurinn.  Þrátt fyrir teiknimyndalega grafík og fremur einfalda (en góða) spilun hélt Warcraft II vinsældum sínum í mörg ár eftir útgáfu, enda vel hannaður og góður rauntímaherkænskuleikur sem lagði jafn mikla áherslu á einspilun og fjölspilun.

#2 – Total Annihilation (GT Interactive, 1997)

Stríð sem byrjaði vegna deilna um flutning mannsvitundar yfir í vélræna líkama hefur geisað í 4000 ár í heimi Total Annihilation. Fylkingarnar tvær; Core og Arm, eru eftir allan þennan tíma búnar að nota nánast allar auðlindir vetrarbrautarinnar til að reyna að knýja fram sigur. Nú þegar aðeins brot er eftir af styrk beggja liðanna fellur það í skaut spilarans að velja sér hlið og gjöreyða hinu liðinu með risastórum vélmennaher. Total Annihilation kynnti til sögunnar fullt af nýjungum inn í rauntímaherkænskuleikjageirann. Þrátt fyrir að vera í tvívídd hegðaði leikurinn sér líkt og í þrívídd, en því var komið fram með flókinni grafíksvél sem gaf öllu á orrustuvellinum hæð. Þetta gerði það að verkum að spilarinn gat nýtt sér umhverfi leiksins á hátt sem ekki hafði tíðkast áður, en fjöll og byggingar gáfu skjól frá skotum, og því var hægt að stilla upp orrustum þannig að umhverfið hafði mun meiri áhrif en í venjulegri tvívídd. Þyngdarafl var einnig partur af grafíksvélinni, en það hafði meðal annars áhrif á hve langt fallbyssuskot drifu, en þyngdarafl var breytilegt eftir því á hvaða plánetu orrustan tók sér stað. Framleiðsluferlið í Total Annihilation var líka glænýtt, þar sem peningar spilarans komu inn sjálfkrafa og höfðu þannig áhrif á hve mikið hann gat framleitt í einu. Samt sem áður þurfti að safna málmi úr jörðinni með þar til gerðum byggingum, en einnig var hægt að safna saman dauðum vélmennum af orrustuvellinum og breyta þeim í málm. Orrusturnar í leiknum voru af stærðargráðu sem hafði ekki áður sést í rauntímaherkænskuleik. Á meðan aðrir samtímaleikir leyfðu spilurum að jafnaði að byggja á milli 100-200 hermenn í hverju borði, þá var hægt að stýra allt upp í 5000 vélmennum í Total Annihilation. Flestir spilarar gátu þetta reyndar ekki einfaldlega vegna takmarkanna á tölvubúnaði, sem aftur sýnir fram á hve langt á undan sinni samtíð Total Annihilation var. Leikurinn vann sér fljótlega inn yfir 50 verðlaun um allan heim, mörg hver sem lýstu leikinn besta herkænskuleik ársins. Enn í dag er fjöldinn allur af fólki sem spilar Total Annihilation, og er virkt samfélag á bak við leikinn sem heldur áfram að bæta við og betrumbæta leikinn. Það eru ekki margir 15 ára leikir sem geta státað sig af því, en þó einhverjir…

#1 – Starcraft (Blizzard, 1998)

Starcraft er leikur sem allir unnendur rauntímaherkænskuleikja ættu að kannast við, en hann hefur af mörgum gagnrýnendum verið sagður einn mikilvægasti tölvuleikur sem komið hefur út fyrir rauntímaherkænskuleikjageirann. Saga leiksins tekur sér stað í framtíð mannkynsins á 26. öldinni. Mannkynið hefur dreift úr sér um vetrarbrautina og tekið sér bólfestu á fjölda plánetna. Að því er virðist upp úr þurru er ein plánetan þurrkuð út af geimverum sem kalla sig Protoss. Þetta atvik leiðir til stríðs, en síðar kemur í ljós að ástæða árásarinnar var sú að önnur geimverutegund sem kölluð er Zerg hefur leynilega verið að koma sér fyrir á mannbyggðum plánetum. Protoss árásin var því gerð til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu Zerg geimveranna, en allt er um seinan og stríð milli þessara þriggja tegunda er óumflýjanlegt. Áður en Starcraft kom út höfðu aðrir rauntímaherkænskuleikjaframleiðendur þegar reynt að gera leiki þar sem lið voru með mismunandi spilunarstíl, en engum tókst eins vel til og Blizzard. Liðin þrjú voru svo gerólík í spilun, að spilun söguþráðs hvers liðs var nánast sér leikur út af fyrir sig. Mennska Terran liðið var með langdræg vopn og öflugar varnir. Háþróuðu Protoss geimverunar voru fámennar, en með kraftmikla galdra og sterka hermenn. Hinar pöddulegu Zerg geimverur voru hins vegar fremur veikar, en bættu upp fyrir það með því að vera hraðar og gífurlega fjölmennar. Fyrir utan það að vera frábær leikur hefur Starcraft haft gífurleg áhrif á tölvuleikjamenningu, en það má segja að hann sé fyrsti tölvuleikurinn sem menn höfðu atvinnu af að spila. Leikurinn náði sérstaklega miklum vinsældum í Kóreu þar sem sjónvarpsstöðvar voru stofnaðar til að fylgjast með framvindu leikja í atvinnumannakeppnum, en árið 2005 horfðu 120.000 manns á úrslitaleik SKY keppninar sem var haldin í Kóreu, en leikurinn er enn í dag spilaður þar af kappi. Starcraft er einn mest seldi tölvuleikur allra tíma, en u.þ.b. 13 milljón eintök af leiknum höfðu verið seld árið 2009. Þar fyrir utan hefur hann unnið til ótal margra verðlauna og margoft verið útnefndur besti rauntímaherkænskuleikur allra tíma. Því vel ég Starcraft sem besta rauntímaherkænskuleik seinustu aldar, og jafnvel allra tíma!

- KÓS

Uppvöxtur, ástir og örlög Space Invadera [MYNDASAGA]

$
0
0

Hefur þú einhvern tíman velt því fyrir þér á meðan þú spilar Space Invaders, hvernig lífi geimverurnar sem þú ert að skjóta hafi lifað áður en þær gerðu árás á Jörðina? Handritshöfundurinn og leikjahönnuðurinn Ehud Lavski hefur svo sannarlega gert það.

-KÓS

Áróðursplaköt úr heimi tölvuleikjanna [MYNDIR]

$
0
0

Hefur þú einhvern tíman hugsað út í hvaðan King Koopa fær allar þessar skjaldbökur til að berjast fyrir sig? Eða hvað aukalífin í Asteroids standa fyrir, og hver sér um að kaupa allar kraftapillurnar í Pac-Man borðin? Það er hægt að koma mörgu til leiðar með góðri áróðursherferð, meira að segja í heimi tölvuleikjanna.

 

 

- KÓS

Myndir: ThinkGeekBuzzFeed

Saga leiks: Super Mario Bros. 2

$
0
0

Allir tölvuleikjaunnendur ættu að þekkja Super Mario leikina. Fyrsti leikurinn með bræðrunum Mario og Luigi, Mario Bros., kom út árið 1983, og því kemur þessi víðfræga tölvuleikjasería til með að fagna 30 ára afmæli sínu í júní á næsta ári. Mario Bros. náði þó aldrei miklum vinsældum. Það var ekki fyrr en Super Mario Bros. kom út í september árið 1985 sem serían tók á flug, en sá leikur er mest seldi Mario leikurinn, og í þokkabót einn af mest seldu tölvuleikjum allra tíma, með rúmlega 40 milljón eintök seld á heimsvísu.

Super Mario Bros. var vinsælasti tölvuleikur síns tíma. Leikurinn má að miklu leyti þakka vinsældir sínar þeirri staðreynd að hann fylgdi með NES tölvunni þegar hún kom á bandaríska markaðinn, og því var Super Mario Bros. í flestum tilvikum fyrsti Nintendo leikurinn sem vestrænir neytendur spiluðu. Fyrir utan það var leikurinn sjálfur virkilega góður. Gagnrýnendur lofuðu leikinn fyrir góða stjórnun, frumlega borðaskipun, litríkt útlit og umfram allt var leikurinn í alla aðra staði vel hannaður. Því kom það mörgum á óvart vestan hafs, að með eins vinsælan leik og Super Mario Bros., hafi ekki komið út framhald fyrir leikinn fyrr en þremur árum síðar, þegar Super Mario Bros. 2 kom út í Bandaríkjunum í september 1988. Sat Nintendo virkilega auðum höndum í þrjú ár án þess að freistast til að henda út framhaldi fyrr? Stutta svarið er nei. Langa svarið er aðeins flóknara.

Super Mario Bros. 2 kom út í Japan 3. maí 1986, aðeins átta mánuðum á eftir fyrirrennari sínum. Af hverju beið þá bandaríski armur Nintendo í rúm tvö ár með að gefa leikinn út fyrir vestrænan markað? Málið er að japanski Super Mario Bros. 2, og vestræni Super Mario Bros. 2, eru ekki sami leikurinn. Japanski Super Mario Bros. 2 kom út fyrir Famicom Disk System viðbótina og er alls ekki ósvipaður fyrri leiknum, en hann notast í raun við sömu leikjavél. Leikurinn var gífurlega vinsæll í Japan og seldist í 2.5 milljón eintökum, og er þar með mest seldi Disk System leikurinn. Leikurinn bauð ekki upp á tvíspilun líkt og fyrri leikurinn, heldur gat aðeins einn spilari spilað, en hann gat valið á milli Mario og Luigi sem höfðu örlítið breytta spilunareiginleika frá fyrri leiknum. Leikurinn var einnig gerður erfiðari. Óvinirnir voru til að mynda mun ágengari og sveppirnir sem höfðu framan af verið tengdir við aukalíf voru stundum eitraðir og drápu spilarann. Leikurinn var í raun það erfiður að Nintendo í Bandaríkjunum þorðu ekki að gefa hann út, þar sem hinn vestræni heimur hafði ekki eins mikinn áhuga og Japanir á háu erfiðleikastigi tölvuleikja. Bandaríski markaðurinn þurfti engu að síður að fá framhald af vinsælasta leik allra tíma, og því var ákveðið að búa til annan leik fyrir þann markað.

Þar með hefst saga Super Mario Bros. 2 sem við öll þekkjum og spiluðum á gömlu gráu Nintendo brauðristunum okkar. Nintendo í Japan voru þegar byrjaðir að hanna Super Mario Bros. 3, og því vildu þeir ekki beina of mikið af sínum kröftum í að búa til glænýjan Super Mario Bros. 2 leik. Þá var gripið til þess ráðs að taka leik sem hafði ekki komið út í Bandaríkjunum, en var þegar tilbúinn og útgefinn í Japan, og breyta honum í bandaríska Super Mario Bros. 2. Leikurinn sem varð fyrir valinu var Yume Kōjō: Doki Doki Panic (Lauslega þýtt; Draumaverksmiðjan: Hjartþrungin óráðstía).

Yume Kōjō: Doki Doki Panic fjallar í stuttu máli um fjögurra manna arabíska fjölskyldu sem ferðast yfir í hliðstæðan heim til að bjarga börnum í neyð. Frumgerðin af leiknum var hugsuð sem samspilunarleikur, þar sem spilararnir gætu hent hvor öðrum um til að leysa þrautir og komast í gegnum borð. Þessi hugmynd þótti of háfleyg árið 1987, og því sat frumgerðin lengi ónotuð í gagnabönkum Nintendo þangað til Yume Kōjō: Doki Doki Panic var gerður út frá auglýsingasamstarfsverkefni milli Nintendo og japönsku Fuji sjónvarpsstöðvarinnar, en persónurnar í leiknum er byggðar á lukkudýrum Fuji. Leikurinn var gefinn út fyrir Famicom Disk System viðbótina, og hafði þar af leiðandi ekki verið gefinn út í Bandaríkjunum. Leikurinn þótti því tilvalinn til þess að breyta í Mario leik. Arabísku fjölskyldunni var skipt út fyrir Mario, Luigi, Toad og Peach prinsessu, en að öðru leyti var nánast engu breytt. Leikheimurinn þótti þegar frekar Mariolegur og tónlistin í leiknum var hönnuð af sama tónlistarmanni og hafði séð um fyrri Marioleiki. Eftir að sögusenum hafði verið bætt við og aðrar örsmáar pixlabreytingar gerðar, var leikurinn talinn tilbúinn fyrir útgáfu á bandarískan markað.

Super Mario Bros. 2 kom loks út í Bandaríkjunum þann 1. september árið 1988. Til gamans má geta að aðeins mánuði seinna kom Super Mario Bros. 3 út í Japan. Leikurinn seldist í 10 milljón eintökum og var þá þriðji mest seldi NES leikur síns tíma. Leikurinn fékk þar fyrir utan ágætis dóma, þrátt fyrir að vera gerólíkur fyrirrennara sínum. Sumir kvörtuðu þó undan því að þeim fyndist þeir ekki vera að spila Marioleik heldur eitthvað allt annað, en þessir sömu einstaklingar áttuðu sig ekki á því fyrr en mörgum árum seinna að þeir höfðu að vissu leyti haft rétt fyrir sér. Super Mario Bros. 2 er í rauninni Marioleikurinn sem átti aldrei að verða til, en varð engu að síður einn af mest mótandi leikjunum í Marioseríunni. Í leiknum kom margt fram sem átti eftir að loða við leikjaseríuna framan af. Til að mynda gátu persónur fyrst haldið á hlutum í þessum leik. Einnig kom í ljós að Luigi var hærri en Mario og fjölmargir af nýju óvinunum áttu eftir að sjást í komandi leikjum.

Bæði japanska og bandaríska útgáfan af Super Mario Bros. 2 voru að lokum gefnar út í þeim löndum sem þær áttu áður helst ekki að sjást í. Bandaríska útgáfan var fyrri til og var gefin út í Japan sem Super Mario USA fyrir Famicom tölvuna árið 1992. Japanska útgáfan sem hafði áður þótt of erfið fyrir bandarískan markað, kom út fyrir Super Nintendo tölvuna árið 1993 í leikjasafninu Super Mario Allstars, en þar hét leikurinn Super Mario Bros: The Lost Levels til að koma í veg fyrir allan rugling meðal bandarískra spilara.

Engu að síður eru báðar útgáfurnar af Super Mario Bros. 2 (og Yume Kōjō: Doki Doki Panic fyrir sitt leyti) frábærir leikir. Ef þið hafið af einhverri ástæðu ekki enn fengið færi á spila þessa klassísku leiki, leitið þá þá uppi og takið smá syrpu á A og B tökkunum.

 

Höfundur er Kristinn Ólafur Smárason,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 


Hvaða tölvu úr fortíðinni viltu fá í pakkann?

$
0
0

Það er alltaf jafn gaman að líta til fortíðar og oftar en ekki segja auglýsingar margt um tíðarandann. Kannski ágætt líka að skoða gamlar auglýsingar þar sem við fáum ekkert annað yfir okkur þessa jóladaga en nýjar auglýsingar. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar auglýsingar fyrir tölvur eða leikjatölvur sem þóttu svo svakalega góðar á sínum tíma að það var ekki hægt að lýsa því með nógu sterkum lýsingarorðum. (heimild: timarit.is)

 

Sega Saturn

í Vísi 1996

01_Sega_Saturn

 

Joy Stick

Man einhver eftir versluninni Joy Stick? Þessi auglýsing birtist 1999.

02_JoyStick

 

Power Macintosh

Vá hvað framtíðin reyndist vera miklu betri og nei þessi vél er fyrir fortíðina. Erum komin til ársins 1995.

03_Mac

 

Lynx

Þessi er frá 1992. Borgarkringlan? Var eitthvað sem hét Borgarkringlan?

04_Lynx

 

NES

Gefur orðinu ,,turbo“ algjörlega nýja merkingu. Einhver litlausasta auglýsing sem ég hef séð. Auglýsing  frá 1991.

05_NES

 

Tölvudeild Magna

Tölvudeild Magna. Ekki tölvuverslun Magna, nei tölvudeild Magna. Þeir seldu meðal annars sérrit um tölvur í lausasölu sem og í áskrift. IBM og Machintosh samhæfing var möguleg hjá þeim. Já og svo sérhæfðu þeir sig í Atari. Þetta var árið 1988.

06_Tolvudeild_Magna

 

Commodore 64

Árið 1985 birtist þessi auglýsing. Commodore 64! Eins og stendur í auglýsingunni var margt töff við vélina:
,,Við Commodore 64 heimilistölvuna er til fjöldi fylgitækja, svo sem segulband, diskettudrif, prentari, teiknari, skjár, stýripinnar og fleira. Það sem meira er: öll tengi fyrir jaðartækin eru innbyggð í Commodore 64!“

07_Commodore64

 

Tölvubúðin

Árið 1981 var fólk spurt hvort það vildi fá sér tölvu. Þrátt fyrir það að margir ættu ekki tölvu þá setti Tölvubúðin fram þessa staðhæfingu í auglýsingunni: ,,Engin tölva er betri en forritin sem hún keyrir og forritin frá Tölvubúðinni eru landsfræg fyrir mikil gæði og vandaða uppbyggingu.“ Einmitt.

08_Tolvur

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Spilaðu gömlu tölvuspilin á netinu

$
0
0

Hver man ekki eftir Sub Attack tölvuspilinu?… Enginn? Það er svo sem skiljanlegt. En fyrir þá sem þyrstir í að spila meðal annars Sub Attack og Zelda á upprunalegu tækjunum þá er hægt að gera það í gegnum netið. Vefsíðan www.pica-pic.com er með marga skemmtilega leiki frá níunda áratugnum og því tilvalið að eyða leiðinlegum vinnudegi með því að spila yfirleitt leiðinlega leiki í lélegum gæðum. Sjón er sögu ríkari. Ég myndi líka skoða flippuðu vefsíðu Hipopotamstudio sem hönnuðu leikjavefsíðuna.

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Tölvunördasafnið: Retron 5 skoðuð

$
0
0
Kristinn Ólafur Smárason skrifar: Yngvi Thor Jóhannsson er maðurinn á bak við Tölvunördasafnið sem er nýtt verkefni sem snýr að því að safna öllu því er viðkemur sögu tölvuleikja saman, og þegar fram líða stundir að reisa safn utanum herlegheitin svo almenningur geti kynnt sér sögu leikjatölvna nánar. Yngvi setur reglulega saman myndbönd þar sem [&hellip

Sega Mega Drive safnið endurútgefið á Steam

$
0
0
Aðdáendur gömlu góðu Sega Mega Drive tölvunnar hafa núna ástæðu til að fagna en Sega kynnti í vikunni nýjan leikjaframenda sem kallast Sega Mega Drive Classics Hub og mun vera aðgengilegur í gegnum Steam frá og með 28. apríl. Sega Mega Drive Classics Hub mun gefa spilurum aðgang að öllum klassísku leikjunum sem Mega Drive [&hellip

Tölvunördasafnið: Nintendo GameCube skoðuð

$
0
0
Í nýjasta myndbandinu frá Tölvunördasafninu opnar Yngvi upprunalegan kassa utan af Nintendo GameCube og sýnir okkur hvað fylgdi með þessari klassísku leikjavél. Yngvi fer einnig yfir vélbúnaðinn og annað innihald kassans á fróðlegan og skemmtilegan máta, og sýnir okkur stutt skot úr The Legend of Zelda safninu sem fylgdi með þessari tilteknu tölvu. Horfðu á [&hellip

Tölvunördasafnið: Auðveldari leið til að spila Commodore 64 leiki

$
0
0
Í þessu skemmtilega og fróðlega myndbandi frá Tölvunördasafninu sýnir Yngvi okkur nýja græju sem gerir Commodore 64 tölvum kleift að lesa stórt safn tölvuleikja af SD minniskorti. Þessi handhæga viðbót gerir unnendum Commodore 64 tölvunnar kleift að spila leiki hraðar, en einnig að spila leiki sem þeir eiga ekki á upphaflegu diskunum. Horfðu á myndbandið og sjáðu [&hellip

Ný leikfangalína með stökkbreyttu Ninja skjaldbökunum innblásin af tölvuleik frá 1989

$
0
0
Flest öll þekkjum við stökkbreyttu tánings ninja skjaldbökurnar; Leonardo, Donatello, Raphael og Michaelangelo. Skjaldbökurnar frægu komu fyrst fram á sjónarsviðið í teiknimyndasögu eftir Kevin Eastman og Peter Laird árið 1984, en hafa síðan þá einnig birst í fjölmörgum útgáfum af teiknimyndum, bíómyndum og tölvuleikjum svo eitthvað sé nefnt. Nú hefur NECA (National Entertainment Collectibles Association) gefið [&hellip

The Legends of Owlia – Nýr NES Homebrew leikur

$
0
0
Það er ekki á hverjum degi sem það kemur út nýr leikur fyrir gömlu gráu NES tölvuna. Engu að síður gaf leikjafyrirtækið Gradual Games út nýjan NES leik fyrir nokkru síðan sem ber titilinn The Legends of Owlia. Leikurinn minnir mikið á upphaflega The Legends of Zelda, enda er sækir hann mikinn innblástur í þann [&hellip

Leikjarýni: Galaga –„magnað hvað þessi leikur er tímalaus“

$
0
0
Ef þú ert að pæla í hvað eigi að gera við afganginn af PlayStation inneigninni þinni þá eru þó nokkrir leikir undir 5 dollurum í bandarísku búðinni og þar á meðal er Galaga, klassíski spilakassaleikurinn sem mun fagna 35 ára afmæli næstkomandi september. Það er alveg magnað hvað þessi leikur er tímalaus, hann hefur aldeilis [&hellip

Spilar retróleiki til styrktar Barnaspítala Hringsins

$
0
0
Kristinn Ólafur Smárason ætlar að hlaupa stafrænt Maraþon til styrktar Barnaspítala Hringsins á Menningarnótt, þann 19. ágúst. Kristinn fer í hlutverk sprettharða bláa broddgaltarins Sonic og mun spila í gegnum retró tölvuleikina Sonic The Hedgehog 1, 2 og 3 í einni lotu. Kristinn er mikill áhugamaður um retróleiki og er maðurinn á bakvið Retró Líf, [&hellip

Hvaða tölvu úr fortíðinni viltu fá í pakkann?

$
0
0
Það er alltaf jafn gaman að líta til fortíðar og oftar en ekki segja auglýsingar margt um tíðarandann. Kannski ágætt líka að skoða gamlar auglýsingar þar sem við fáum ekkert annað yfir okkur þessa jóladaga en nýjar auglýsingar. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar auglýsingar fyrir tölvur eða leikjatölvur sem þóttu svo svakalega góðar á [&hellip

Spilaðu gömlu tölvuspilin á netinu

$
0
0
Hver man ekki eftir Sub Attack tölvuspilinu?… Enginn? Það er svo sem skiljanlegt. En fyrir þá sem þyrstir í að spila meðal annars Sub Attack og Zelda á upprunalegu tækjunum þá er hægt að gera það í gegnum netið. Vefsíðan www.pica-pic.com er með marga skemmtilega leiki frá níunda áratugnum og því tilvalið að eyða leiðinlegum vinnudegi með [&hellip
Viewing all 39 articles
Browse latest View live